Ljóð sem byrja á: L
Dálkur: M Röð: 48
© Haukur Snorrason/photos.is 
Laxá í Kjós

Í Kjósinni átti ég eitt sinn
svo undurgóðan dag,
og þar er allt fullt upp af fuglum –
í fyrra sáu þeir örn

sem flaug yfir hálsa og hæðir
og heiðbláa fjallatjörn.

Ég stóð við ána og starði
í straumlygnu rétt við klöpp
og hugsun mín lék sér við laxinn
sem leitaði móti straum –

ég vaknaði upp við að áin
rann inn í mitt ljóð, og minn draum.

Ég vaknaði upp og enginn
veit afhverju draumur minn
var frábrugðinn öllu öðru
sem okkur er fært að sjá:

ég horfði huldufólksaugum
inní hamrafjöllin blá.

Matthías Johannessen
  prenta