Ljóð sem byrja á: L
Dálkur: I Röð: 38
© Haukur Snorrason/photos.is 
Lindin

Til þín, vina, fljótt ég fer,
fagra lindin grænna dala,
því að einni unnt er þér
angurmæddu brjósti’ að svala.
Við engjarósir alda þín
óman hreyfir munarklökkri.
Veröld sveipuð syndarökkri
björt í þinni skuggsjá skín.

Þú við steina hjalar hljótt
hindarmáli unaðsblíðu,
kveðr um sæla sumarnótt
og sjafnareld í brjósti þýðu.
Þín mér skemmtir bára blá,
í banastríði þegar titrar,
meðan geisli mánans glitrar
hennar blíðu brjóstum á.

Og hún sveiflast silfurtær
svöl og hrein um vegu bláa,
önnur þar til aldan slær
og eyðast hlýtur lífið smáa.
Hennar dauðabrosið blítt
blikar móti stjörnuloga
uppi’ á heiðum himinboga
vonarbjart og vinarhlýtt.

Ó, að myrkva ævin mín
ævi hennar líkjast mætti,
og þegar loksins lífið dvín,
lyktaði með sama hætti.
Sannarlega er sætt um stund
í sælu’ að njóta gæða lífsins,
en undir eins við komu kífsins
sofna hinum blíða blund.

Sælt er að lesa broshýr blóm
blíðum vermdum sólarljóma.
Sælt er að hlýða’ á svanaróm
sveiptur himingeisladróma.
Samt mun ekkert sælla fást,
en sínu lífs á vori fríðu
með hreinu brosi, himinblíðu
heim að kveðja, æsku’ og ást.

Kristján Jónsson
  prenta