Íslensk náttúra í ljóðum
Í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar heiðrar Mjólkursamsalan, í samstarfi við Hvíta húsið, minningu hans með útgáfu á nýju veggspjaldi og vef með íslenskum náttúruljóðum.

Jónas Hallgrímsson er ástsælasta ljóðskáld Íslendinga og með orðsnilld sinni, þekkingu og ást á íslenskri náttúru kenndi hann þjóðinni að meta landið á alveg nýjan hátt í gegnum ljóð sín. Veggspjaldið samanstendur af 816 ljósmyndum úr íslenskri náttúru sem mynda í sameiningu andlit Jónasar. Má það teljast afar viðeigandi í ljósi þess hvað íslensk náttúra var Jónasi alla tíð kær og fáir hafa lýst henni betur.

Ljóð Jónasar Hallgrímssonar skipa stærstan sess á vefnum, en þar má finna alls 443 ljóð eftir 119 höfunda frá 19. og 20. öld. Þessi nýi vefur er langviðamesta safn íslenskra náttúruljóða sem nokkru sinni hefur verið tekið saman. Um leið markar hann alger tímamót í því hvernig hægt er nálgast fróðleik um íslenskar bókmenntir og náttúru á lifandi og myndrænan hátt. Nú er t.d. hægt að fjalla í senn um bókmenntir þjóðarinnar, sögu, náttúrufræði og örnefni Íslands, með nútímalegum hætti, og mun vefurinn koma að góðu gagni í grunnskólum landsins.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Námsgagnastofnun sem dreifir veggspjaldinu í alla grunnskóla landsins. Á vef Námsgagnastofnunar, www.nams.is, er aðgangur inn á ljóðavefinn og þar er einnig að finna hugmyndir um hvernig nýta má vefinn í kennslu.

Leiðbeiningar um vefinn
Sérhver ljósmynd vísar í atriðisorð úr íslensku náttúruljóði. Þegar bendli er rennt yfir veggspjaldið stækka myndirnar, og sé smellt á mynd opnast gluggi með viðkomandi ljóði í fullri lengd ásamt nafni höfundar. Til að komast aftur á upphafssíðu er smellt aftur á myndina.
 

Atriðisorðin skiptast í fjóra flokka, örnefni, jurtir, dýr og landslag, og í ljóðaleitinni er hægt að finna öll ljóð þar sem Herðubreið kemur við sögu, eða hrafn, svo dæmi sé tekið. Sömuleiðis er hægt að leita eftir nafni höfunda og ljóða.

Sérstakar þakkir
Mjólkursamsalan og Hvíta húsið þakka eftirtöldum veitta aðstoð við þetta viðamikla verkefni:
Páll Valsson
Haukur Snorrason
Snorri Snorrason
Námsgagnastofnun
Rithöfundasamband Íslands
Íslensk málstöð
Pétur Þorleifsson
Ágúst H. Bjarnason
Ýr Þórðardóttir
Þuríður Óttarsdóttir
Helgi Grímsson
... að ógleymdum öllum þeim höfundum og aðstandendum sem veittu góðfúslegt leyfi fyrir birtingu ljóða á vefnum.

Land þjóð tunga
Veggspjaldið með Jónasi er þriðja veggspjaldið sem Mjólkursamsalan gefur út undir merkjum átaksins Íslenska er okkar mál. Hið fyrsta kom út árið 1996, þar sem andlit Jóns Sigurðssonar var sett saman úr ljósmyndum af Íslendingum. Árið 2002, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness, kom annað veggspjaldið út þar sem andlit Halldórs birtist gegnum tilvitnanir í íslensk bókmenntaverk. Með þessu þriðja veggspjaldi hefur MS dregið fram hina sönnu þrenningu íslenskrar menningar: land, þjóð og tungu.


Ljósmyndirnar á vefnum eru fengnar frá Hauki Snorrasyni á www.photos.is. Þær má einungis nota í tengslum við verkefnið og ekki afrita nema með leyfi höfundar.

Vinsamlegast sendið ábendingar og athugasemdir á vefstjori@ms.is