Ljóð sem byrja á: L
Dálkur: J Röð: 14
© Haukur Snorrason/photos.is 
Litrófið

Sumarið kann ég að meta
með seytlandi lækjum af heiðinni niður að sjónum
Ég nefni tónstiga hrossagauksins
sem nær frá himni sirkustjaldsins
niður að gólfi
án afláts klifinn af fuglum
í öllum regnbogans litum
Ymjandi kontrabassi hunangsflugunnar
mælir hæð hinna skærustu tóna
Ég kann að meta fimmundagripin
og fúgur trjágreina og lyngs
sem flétta mér hljóðlátan unað

Um fætur mína hríslast næturdöggin
en fagurgrænt laufið strýkur mér svefn af augum

Af því ég sé hvernig búsældarleg jörðin skiptir litum
bróðurlega milli fjarðar og himins
heiðar og strandar
og hinna ólíkustu tegunda
– ekki til að skapa óreiðu
heldur einfaldlega til að gleðja augu mín
Við gullinsnið hins fjölbreytilegasta samræmis
– gleðst ég við að sjá
marglitt ungviðið á barnaleikvellinum
sem blandar hlæjandi andlitum sínum
í alvöru þessarar stundar
þegar ofbeldið ríkir á strætunum
og einn litur ræðst gegn öðrum
með ofríki liðins vetrar
og vill útrýma stafrófi sólargeislanna ...

Hannes Sigfússon
  prenta