Atriðisorð:
Atlavík
  Örnefni
Dálkur: J Röð: 7
© Haukur Snorrason/photos.is 
Atlavík '83

Nóttin blá var og blaut
en blíða hennar sú laut
sem ég kaldur til þurrðar mér þráði.
Var hún skyld mér? Af Skeiðum?
Í skyldu með mér á Eiðum?
Kom hún undir í Atlavík?
Að mínum dansi hún dróst
svo dingla fann ég þau brjóst
er síðan í hávaðann hurfu.

Og hún kyssti hann
og kyssti annan mann.
Ég sá hana bíta’ í þá báða.
Og hún gisti hann
og gisti annan mann.
En ég fann ekki fót minna ráða.


Þar stóðu menn í stuði
og stálu senu frá guði
þegar droparnir drýgðu mitt vín,
Og mig önnur fann
sem átti of fullan mann
en dó svo í daðrinu miðju.
Loft var Legi blandið,
lillablátt úr mér hlandið,
og stífnandi stög um minn hæl.

En hún kyssti hann
og kyssti annan mann.
Gildir hér grænlenskur kvóti?
Og hún gisti hann
og gisti annan mann.
En mér flaut ekki kelling á Fljóti.


Er ég í týndu tjaldi
tóma pokann valdi
runnu þar lækir um lás.
Um miðjan mánudag
ég mundi ekkert það lag
sem helgarsporunum spillti.
Og það veit kaldur Kári
að kem ég ekki að ári
til að ergja minn Lagarfljóts-orm.

En samt, hún kyssti hann
Og kyssti annan mann.
Sá fyrri var loðinn í framan.
Og hún gisti hann
og gisti annan mann.
Nú eiga þeir afkvæmið saman.

Hallgrímur Helgason

  prenta