Jurtir
Dálkur: Í Röð: 9
© Haukur Snorrason/photos.is 
Dimmuborgir

Sæl og heit af sumargöngu
sólin býst til næturhvíldar,
dokar við og dýrum gróðri
dals og heiða sendir kossa.
Allir litir ljóss og skugga
leika sér í dansi um vatnið.
Rautt og blátt og grænt og gullið
gráu og svörtu faðminn bjóða.
Fram á austurloftið líður
löngum skrefum bleikur máni,
stórum augum undrast þessa
unaðsbirtu júlíkvöldsins.
En að baki byggða og stranda
bíður stærsta ævintýrið:
Dimmuborgir – Dimmuborgir
draga til sín augu mín.

Mitt í sælli kvöldsins kyrrð
lít ég átök lífs og dauða,
langa skugga vetrarnátta,
heitar óskir hvítra brjósta,
hungurgöngur manna og dýra,
bjartan draum í vögguvoðum
verjast nöktum kjúkum feigðar.
Berurjóður blómum þakið
brosir við og laðar augun,
en í hnakkann gráðugt gusta
grimmar sjónir bleikrar vofu.
Lífsins dýrð og dauðagrunur, –
Dimmuborgir fyrst og hinst.

Hér er enginn áttavilltur, –
enginn stígur hinum fremri.
Allar leiðir laða og hrinda,
ljós og dul í hverju spori.
Og með heitri eftirvænting
áfram brýst þú töfrum numinn.
Við hvert leiti opnast augum
undur nýrra kynjaheima,
líkt og glettnir guðir hafi
gengið hér að æskuleikjum,
átt það markmið eitt að skapa
allt, sem mennskan huga grunar
milli svefns og sólarvöku,
seiði vors og nornagaldri
slöngvað saman og þau undur
öll í steinsins drápu sungið.
Dagsins birta, draumsins leyndir, –
Dimmuborgir fyrst og hinst.

Heil og sæl á sumarnóttu,
systir kær, í Dimmuborgum,
Fjötruð sandsins feigð að hálfu
faðminn teygir þú mót himni.
Ilmsins ljóð og litatöfra
leggur þú í foldarkvæðið.
Beinum stofni, stolt og tigin
storkar foksins auðnarmætti.
Fagurlaufguð lífsins dóttir
limi grænu hlær við dauða,
veit í frjói vaxtarmáttinn,
vonum trúan, sigri borinn.
Stofninn þinn ég þögul kyssi,
þjóðar minnar áttaviti.
Dóttir lífs við dauðann teflir, –
Dimmuborgir fyrst og hinst.

Dimmuborgir, – Dimmuborgir.
Dul og kynngi nafnið felur.
Veit ég þar á vetrarkvöldum
vofuleiki á stirndum sköflum.
En í nótt að seiði sitja
sigurreifar lífsins vættir,
meðan dans á bjarkablöðum,
blóðbergstó og lyngi stíga
álfar ljóss, og léttir skuggar
leika sér við hvamm og dranga.
Innst í skútum gjóta glyrnum
gamlir draugar vetrarhúmsins,
gretta sig við galdri hvítum,
gamna sér við snjó í sprungu.
Og í sumaróðinn blandast
angurtónar, fró og grátur,
dauðageigur, draumur lífsins, –
Dimmuborgir fyrst og hinst.

Jakobína Sigurðardóttir

  prenta