Jurtir
Dálkur: I Röð: 15
© Haukur Snorrason/photos.is 
Sorg

Þar sem djúpa dalinn taka
dimmblá fjöll í arma sterka
og í brekkum birkilundir
blöðin rétta móti varma,
þar sem tærar, litlar lindir
ljósan þráð úr gulli spinna,
meðan eygló yfir brennur,
en um nótt úr skíru silfri, –
langar mig að minnast þín.

Þar sem blóm í laufalautum
ljúfu máli saman tala,
sem að ást og angur skilja, –
blágresi og burknar grannir,
brönugrös og músareyra,
ljósberi og lækjarstjarna,
litlar fjólur, æruprísar,
gullmura og gleym-mér-eigi, –
vildi ég mega minnast þín.

Allar stundir ævi minnar
ertu nálæg, hjartans lilja.
Þó er næst um næðisstundu
návist þín og angurblíða,
ástarljós og endurminning.
Allar stundir ævi minnar,
yndistíð og harmadaga,
unaðssumur, sorgarvetur –
sakna ég og minnist þín.

Hulda

  prenta