Ljóð sem byrja á: A
Dálkur: G Röð: 39
© Haukur Snorrason/photos.is 
Að Hreðavatni

Sekkur í voginn
syngjandi lindar
silfurstrengur.
Lækurinn kliðar
á leið til þagnar, og lagvís áin
fossar um gljúfur,
fellur í vatnsins
faðm – og er ekki lengur.

Skynja ég lindina,
lækinn og ána
líkt og mig dreymi.
En kyrrlátt vatnið
sem vatni safnar
verður æ dýpra:

ég eygi hvergi
elfi né sytru
sem úr því streymi!

Þó skilar það aftur
öllum lindum
sem í það renna,
hverjum dropa úr læknum
og dynjandi ánni
um dulinn farveg,
ósýnilegan
augum mínum
– utan við sjónhring þenna.

Ólafur Jóhann Sigurðsson
  prenta