Landslag
Dálkur: M Röð: 21
© Haukur Snorrason/photos.is 
Haukurinn

Gott áttu, hraðfleygi haukur,
sem hamrana byggir,
frelsið er eign þín og arfur
frá ómuna tíðum.
Himinnins heiðblái faðmur,
hafið og fjöllin,
allt er þitt víðlenda veldi,
voldugi haukur.

Augu þín morgninum mæta,
þá myrkt er í dölum,
sólgeislinn fyrsti er sindrar
þú svefninum léttir.
Útsýn frá tindinum efsta,
í árdegis friði,
unnt er þér einum að líta,
alfrjálsi haukur.

Skuggarnir láglendið lykja,
þó ljóst sé hið efra,
byggðin er þögul, hún blundar
í blækyrrum friði.
Einstakur ljósgeisli læðist
að lokuðu blómi,
svo rennur sólin hið neðra
og sveitirnar vekur.

Blika þá dögglitir dalir
í dagroða hjúpi,
öræfi óbyggð og heiðar
með alfrjálsum hjörðum,
vötnin, með heiðríkan himin
í hyldjúpu fangi,
særinn og fannhvítir fossar
að fótum þér syngja.

Fjallanna frjálsborni sonur!
Þér fegurðin lýtur,
hollvættir himinsins líða
þinn hástól í kringum.
Sægolan svifin af hafi
á svalandi vængjum
sólheitum sunnanblæ mætir
með söngóm úr dalnum.

Volduga vængi þú breiðir,
í vorloftsins bylgjum
stígur þú hærra og hærra
og hverfur loks sýnum.
Síðasta bergmálið sofnar
af sönghljómi jarðar,
himinþögn, hátignar djúpa,
þín hjartaslög rjúfa.

Hulda

  prenta