Atriðisorð:
Fjallabaksvegur




  Örnefni
Dálkur: K Röð: 43
© Haukur Snorrason/photos.is 
Fjallabaksvegur

Nú veiztu, nú veiztu hver arfur aldanna var
til íslendingshjartans á grýttum förumannsvegi:
sú freisting að leita sér skjóls undir skútanum þar
sem skaflinn mun verða þyngstur á næsta degi.

Nú skilur þú líka hvers vegna sagan er sönn
um svefninn í snjónum er lokaði augum mínum.
Nú grunar þig hvers vegna er reimt þegar rökkvar í fönn
og rjúkandi bylurinn ærist að lúðri sínum.

Ég reisi mín bein upp við dogg í dynjandi hríð,
þá dregst ég á fót og sveima á öræfaleiðum.
Ég leita að sporum. Ég legg við hlustir og bíð.
Og lengi er þó nokkur fengs von á íslenzkum heiðum.

Því til eru þeir sem streitast með bogin bök
þó bjóðist þeim uppgjöf í skjóli og lokkandi friður,
hvað tæpt sem þeir standa, hvað krappt sem þeir verjast í vök
þá vilja þeir samt ekki grafa sig lifandi niður.

Og bylurinn æðir og felur hið fölnaða lyng
og frostsins helkaldi eldur í myrkrinu brennur.
– Og vei og vei, samt ganga þeir heldur í hring
á holtinu, þar til dagur í austri rennur.

                   *

Trúðu þeim ekki. Þeir trássast við dauða sinn
og tönnlast á því að fögur sé morgunsólin.
En fylgdu mér fast í dimmunni, drengur minn.
Í Dauðsmannsgili skulum við halda jólin.

Guðmundur Böðvarsson

  prenta