Landslag
Dálkur: B Röð: 43
© Haukur Snorrason/photos.is 
Þegar vetrar þokan grá

Þegar vetrar þokan grá
þig vill fjötra inni:
svífðu burt og sestu hjá
sumargleði þinni.

Þar var löngum lokið skjótt
lífsins öllum mæðum.
Manstu, hvað þær flýðu fljótt
fyrir hennar kvæðum?

Taktu öruggt hennar hönd,
hún mun aftur finna
þau hin sælu sólskinslönd
sumardrauma þinna.

Þar sem loftsins létti son
leið með skærum hljómi,
þar sem yndi, vor og von
vögguðu hverju blómi.

Fljúgðu helst á hennar fund,
hvenær sem þú getur,
við það munu stund og stund
styttast nótt og vetur.

En ef létt er lundin þín,
loftið bjart og næði:
sestu þar sem sólin skín,
syngdu lítið kvæði.

Það er líkt og ylur í
ómi sumra braga;
mér hefur hlýnað mest á því
marga kalda daga.

Þorsteinn Erlingsson

  prenta