© Haukur Snorrason/photos.is 

Fákur

Þú hvarfst inn í skuggann,
skeiðbrimir týndra himna,

að þreyja í myrkri
við minning um söngfáin hvolf,

svið þau sem dynhófa
dýrast eggjuðu forðum

í dögun á vori
og dundu við vængjaslátt.

Kom þú úr skugganum,
skeiðbrimir týndra himna,

þó dynhófa bíði nú
dreyrug og sviðin jörð,

vopnbitnir lýðir,
lönd og álfur í sárum,

þornaðir brunnar,
börn án verndar og skjóls.

Kom þú úr skugganum,
skeiðbrimir, hættu að syrgja

himna sem týndust,
hvolfin söngfáð og björt.

Hlustaðu á kallið:
kvaldir og smáðir vilja

að bæn þeirra lyftist
við líknsaman vængjaslátt.

Ólafur Jóhann Sigurðsson