© Haukur Snorrason/photos.is 

Kvöldvísur um sumarmál

Yfir mófjallið rauða
bláhvítu ljósi stafar
nýmáninn fölur á brá.
Úti af fjörum brúnum
vesturfallinu knúin
ómar í logni hvítu
harpa í djúpum sjó

harpa sem leikur undir
vorkvöldsins slæðudansi
dapurt og glatt í senn.
Moldin dökka sem geymir
lík hinna týndu blóma
blóma sem hönd þín snerti
aftur er hlý og fersk.

Rökkur fellur á augu
kvöldsins og önnur blárri
handan við glötuð vor
verður að einu og rennur
saman kvöldið og mynd þín
hljóð og fögur sem minning
hrein og hvít eins og bæn.

Stefán Hörður Grímsson