© Haukur Snorrason/photos.is 

Hornstrandir
Hugsað til Þ. B.

Á landsenda sé ég fólk
í fangbrögðum við skapanornir
og við dynhamra, flugabjörg
og flækjur veðra
fiskaslóðir, matkletta
moldir, einstigu.

       Langt í norður frá hendi minni:
       hræddum garðfugli.

Guðstrúarfólk í rekavíkum.
Og glæringar drauga!

Söguslóð sem er margbrugðin
sauðgróðri, vorskini, lífgrösum.
Söguslóð sem er margbrugðin
sjávarnið, dökkva, snæbirtu.

Heim innan heimsins. Lífs-stríð
undir hengjum dauðans.

       Langt í norður frá hendi minni:
       hræddum garðfugli

Hannes Pétursson