© Haukur Snorrason/photos.is 

Bláir eru dalir þínir

Bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu
heiður er þinn vorhiminn
hljóðar eru nætur þínar
létt falla öldurnar
að innskerjum
– hvít eru tröf þeirra.

Þöglar eru heiðar þínar
byggð mín í norðrinu.
Huldur býr í fossgljúfri
saumar sólargull
í silfurfestar vatnsdropanna.

Sæl verður gleymskan
undir grasi þínu
byggð mín í norðrinu
því sælt er að gleyma
í fangi þess
maður elskar.

Ó bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu.

Hannes Pétursson