© Haukur Snorrason/photos.is 

Ljóð um Laxárdal

Laxárdalur, ljúfa sveit,
litla blómaríkið mitt,
– hvergi ég í veröld veit
vinarbrjóst svo fagurlitt;
ennþá á ég rósareit
rauðan innst við hjarta þitt.
Laxárdalur, ljúfa sveit,
litla blómaríkið mitt.

Laxárdalur, þökk sé þér,
– þú ert bezti vinur minn:
í mér vor þitt vaggar sér,
vakir yfir himinn þinn;
hvar sem ég í heimi er,
hlíða þinna ilm ég finn.
Laxárdalur, þökk sé þér,
– þú ert besti vinur minn.

Laxárdalur, lítið blóm,
lát mig hvílast við þinn barm,
lát þinn sæla svanahljóm
signa gleði mína og harm,
yfir lífs míns leyndardóm
leggðu blítt þinn mjúka arm.
Laxárdalur, lítið blóm,
lát mig hvílast við þinn barm.

Jóhannes úr Kötlum