© Haukur Snorrason/photos.is 

Á Rauðasandi

Þetta er baðströnd fyrir alla
sem trúa því að veröldin
eigi sér enn málsbætur

Á grasinu upp af sandinum
liggja kýrnar í makindum
og jórtra. Hitinn er 22°C
í forsælu. Móðan titrar
yfir byggakrinum og öxin
glóa í sólinni. Það er
hvítalogn

Hlaðan er líkust því að hafa verið
flutt í heilu lagi úr einhverjum
amerískum afkima (þar sem fólk
man varla hvað forsetinn heitir)

Við vöðum lænurnar neðan
við graslendið og göngum út
á logabjart flæmið niður að
sjónum

Öll orð eru horfin
við bara horfum

Gyrðir Elíasson