© Haukur Snorrason/photos.is 

Í Straumsvík

Verksmiðjan liggur sem tröll útí hrauni;
ásjónan grá af styrkleik og elju
svipurinn hafnar hjali um fegurð
voli máttlausra skrúðgarðsjurta.

Þetta er frumburður veiklyndrar gálu
efldist til dáða af kjarngóðu rafmagni
gefur með föður sem þvælist um heiminn.

Eftir þurrum æðum verksmiðjuskrokksins
dæla stimpilklukkur fersku blóði
það er lífsvökvinn
upprunninn úr Firðinum og Breiðholtinu.

Svo er nótt og svo er dagur.
Handan blárrar móðu leynist íslensk sól
en tröllið í hrauninu virðist ekki breytast.

Anton Helgi Jónsson