© Haukur Snorrason/photos.is 

Hvalfjörður

Með ugg í brjósti einatt lít ég Hvalfjörð.
Þar vafra draugar um hálsa
í tjörnum leynast skrímsl.
Tíðum eru skipakomur bendlaðar við dauðann
og hvergi var dyggilegar ort um eymd og písl.

Geigvænlegur er vegurinn
eilífðarlangur og holum settur.
Á því verður margur yndissnauður
að krækja fyrir botninn.

Í þyrpingu húka braggarnir
á litlum sandi
fyrirsögn nýrrar Íslandssögu.

Siðferðisástandi þeirra sem reistu
ber stíllinn ennþá vitni.

Anton Helgi Jónsson