© Haukur Snorrason/photos.is 

Húsavík við Skjálfanda

Opið haf og heiðkvöld skær
þér himinn gaf.
Glóir vafinn Garðars bær
í geislatraf’.

Kinnarfjöllin bylgjublá
und bjartri mjöll
skjálfa öll í öldugljá
sem álfahöll.

Logns í böndum blundar sær
við bratta strönd,
inn með Söndum sést þó fjær
á silfurrönd.

Lítil alda leikur sér,
með ljósan fald.
Ægir sjaldnar sefur hér
en sýnir vald.

Hér er frítt – þó skorti skóg
og skjól sé lítt –
kveldskin hlýtt og hugrúm nóg
við hafið vítt.

Hulda