Ljóð sem byrja á: Á
Dálkur: Ð Röð: 10
© Haukur Snorrason/photos.is 
Á Þingvöllum

I

Með þungan ilm við andlit hrauns og valla
rís enn einn morgunn, kemur hægt og fer
um gamlar hestagötur, spyr að þér
er gengur um á lyngivöxnum hjalla

sem Jónas forðum, hlustar, heyrir niða
við hraun og mosa löngu storknað blóð.
Hér slær þitt hjarta, land sem er þitt ljóð
laust úr fjötrum uggs og hungursviða;

og – þei – þú hlustar, heyrir mosann gróa
við hljóða mold og fagnar nýrri sól;
þú veizt að tíminn klæðir land sem kól
unz kliðar allt af fuglasöng í móa.

II

Hér rísa hæst þín fjöll, þau fylgja þér
sem fögur minning hvert sem líf þitt ber,
um heima-alnings einskisvirtu slóð
um útlend tún og veg með stærri þjóð.

Og héðan berst þér birkilaufaþeyr
af blásnum kvisti, grein sem aldrei deyr
hún er þitt ljóð, og landið vakir hér
í ljóði þínu og vatnið fylgir þér.

Matthías Johannessen
  prenta