Ljóð sem byrja á: B
Dálkur: D Röð: 20
© Haukur Snorrason/photos.is 
Blómin vaxa á bæjunum

Blómin vaxa á bæjunum
ef bóndinn sáir fræjunum,
Hrafnar krunka á hræjunum.
Hrundir vinda úr blæjunum.
Liggja skip á lægjunum.
Ljótt er að standa á gægjunum.
Flugur trítla á tægjunum.
Titrar rósarblað.
Gott er að eiga góða að.
Svífur sunnanblærinn.
Sjómenn þurrka færin.
Snörp eru snærin.
Silfurgrár er særinn.
Silkið strýkur mærin.
Skörp eru skærin
er skikkju sníða laf
og fagurt falda traf.
Gaman er á grundunum,
á gleði og skemmtifundunum.
Laufið vex á lundunum.
Logn er úti á sundunum.
Þeir lifa á stolnum stundunum
sem stríddu í sorgarundunum.
Gott finnst menjagrundunum
er gullið skín á mundunum.
Spóka sig með sprundunum
spariklæddir menn.
Lífið streymir áfram enn.
Þeim er hollust hamingjan
sem hönd og geði stjórna kann,
stendur fast, ei brýtur bann,
beinir ljósi í dimman rann,
sæl í gleði verk sín vann
viðmótshýr við náungann,
í sínu heima friðsæld fann
fagra heiða daginn.
– Sá yrkir besta braginn –

Guðrún Auðunsdóttir
  prenta