Ljóð sem byrja á: R
Dálkur: Á Röð: 18
© Haukur Snorrason/photos.is 
Rauðsendingadans

Hvítt fellur brimið
á bleikan ægisand:
hörpudiskum hafgúunnar
skolar það á land.
       Við skulum dansa fram í dauðann.

Fuglinn í fjörunni
kominn er úr bergi:
hann er að leita að yndinu sínu
en finnur það hvergi.
       Við skulum dansa fram í dauðann.

Úti fyrir dunar
hinn djúpblái mar:
eilíf er sorgin
í stóra hjartanu þar.
       Við skulum dansa fram í dauðann.

Urtan í látrinu
rær í dökku skinni:
aldrei gleymi ég augunum
í henni Steinku minni.
       Við skulum dansa fram í dauðann.

Skepnan öll er getin í synd
og skapað er henni að þjást:
að fellur og út fellur
hatur og ást.
       Við skulum dansa fram í dauðann.

Fiskurinn í skelinni
hann er sjálfs sín fangi:
vot eru hér brimils augu
og blæðir úr þangi.
       Við skulum dansa fram í dauðann.

Surtarlog á ströndu
er sækinda þrá
– en nú er enginn eldurinn
þar heima á Sjöundá.
       Við skulum dansa fram í dauðann.

Jóhannes úr Kötlum
  prenta