Ljóð sem byrja á: B
Dálkur: G Röð: 15
© Haukur Snorrason/photos.is 
Beinin á bjargbrúninni

Þokan grúfir yfir tindinum
og læðist mjólkurhvít
niður vanga fjallsins.

Grjótið er höfuðlaus her
þar sem þögnin syngur
í afskekktu húsi.

Og bjargið teygir
fingur mót himni,
hvöss brúnin nögl
sem klórar í skýin.

Ef þú opnar dyrnar
berast kyndug hljóðin inn.

Gamall maður bindur um sig
kaðal úr strönduðu skipi
og sígur í björgin.

Yfir hann rignir grjóti
og brimið undir iljunum
orgar við rætur bjargsins.

Einar Már Guðmundsson
  prenta