Ljóð sem byrja á: Í
Dálkur: K Röð: 12
© Haukur Snorrason/photos.is 
Í landsýn

Eg skildi við þig, úng í alvaldsgeim
mín ættjörð, hvar þú gnæfðir björt úr mar,
kvaddi þann leir sem þekkir spor mín þar
og þjóðin treður enn: Farvel og gleym!

Farmanni kátum sól á söltum brám
úr suðri ljómar. Hýr við disk og skál
í syðri löndum lærði eg fjarskyld mál,
eg las þar aldin sæt af grænum trjám.

En þá var sál mín þar sem holtið grátt
og þúfan mosarauða býr við kal,
og bæarfjallið blasir yfir dal,
og berst í kvíða þjóðarhjartað smátt.

Og þá fanst mér sem þessi nakta strönd
og þetta hjarta væri brjóst mitt sjálft,
og líf mitt án þess hvorki heilt né hálft,
– og heimfús gestur kvaddi eg önnur lönd.

Sjá fjöll mín hefjast hvít sem skyr og mjólk
úr hafi, – gnoðin ber mig aftur heim
á vetrarmorgni –, af þiljum heilsa eg þeim:
þú ert mitt land og hér em eg þitt fólk.

Halldór Laxness
  prenta