Ljóð sem byrja á: K
Dálkur: G Röð: 9
© Haukur Snorrason/photos.is 
Kvæðið um fuglana
(Brot)
I

Snert hörpu mína, himinborna dís,
svo hlusti englar guðs í Paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf
og festi á hann streng og rauðan skúf.

Úr furutré, sem fann ég út við sjó,
ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í þá líf.

Þeir geta sumir synt á læk og tjörn,
og sumir verða alltaf lítil börn.
En sólin gyllir sund og bláan fjörð
og sameinar með töfrum loft og jörð.

Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt.
Um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína, himinborna dís,
og hlustið, englar guðs í Paradís.

II

Sá einn er skáld, sem skilur fuglamál,
og skærast hljómar það í barnsins sál.
Hann saurgar aldrei söngsins helgu vé.
Hann syngur líf í smiðjumó og tré.

Sá einn er skáld, sem skilur það og fann,
að skaparinn á leikföng eins og hann
og safnar þeim í gamalt gullaskrín
og gleður með þeim litlu börnin sín.

Sá einn er skáld, sem elskar jörð og sól,
þótt eigi hvorki björg né húsaskjól.
Hann veit, að lífið sjálft er guðagjöf,
og gæti búið einn við nyrstu höf.v
Sá einn er skáld, sem þögull getur þráð
og þakkað guði augnabliksins náð.

Davíð Stefánsson
  prenta