Ljóð sem byrja á: B
Dálkur: E Röð: 27
© Haukur Snorrason/photos.is 
Blóm og fiðrildi

Í dag vil ég ekki yrkja um urðartúnglför og dægurflugmenn.
Í dag vil ég yrkja um blóm og fiðrildi.

Yrkja um blóm og fiðrildi, hváir þú:
Tímasóun sem jaðrar við glæp.
Ertu búinn að stínga gat á hljóðhimnurnar og slíta úr þér augun?
Skynjarðu ekki mannlífsklandrið?

Hvort ég geri.
Ég er strekktur á gaddavír mestallan tímann.

Hörpustelpan skælir í vindhörpunni.
Það sker í eyrun einsog sírena frá sjúkrabíl.

Púkinn spriklar í trumbudjúpi jarðar.
Hann rekur upp hrossahlátra af sársauka.

Ég orti um það í gær og ég skal yrkja um það á morgun.
Í dag vil ég yrkja um blóm og fiðrildi.

Má alvörumaður ekki veita sér svolitla konúnglega vitleysu?
Skánar klandrið við að eftirláta uppskafníngunum blómin?

Fífan breiðir sig yfir flóana úti á nesi.
Morgunfrúrnar breyta birtu gángstíganna í miðbænum.

Hugsaðu um blæinn á viðkvæmum krónublöðum holtasóleyjarinnar.
Rjúpnalaufin eru fagurgræn árið um kríng.

Öllum leiðast stjúpmæður einsog nafnið gefur til kynna.
Allir rækta þær.

Rósir elska ég endaþótt þær stíngi.
Kaktusa hata ég afþvíað þeir stínga.

Þá vil ég heldur íllgresi.
Íllgresi eru líka blóm.

Er ekki hjartarfasinan falleg á haustin?
Er ekki seiglan í baldursbránni aðdáunarverð?

Fiðrildið skýst útúr púpunni.
Ljósið flöktir á vængjum þess.

Það húsvitjar hjá blómunum.
Það snertir hár unnustu þinnar andartak.

Ég vil virkja fiðrildin í baráttu fyrir réttlæti.
Einnig nokkrar fallega röndóttar broddflugur.

Dagur Sigurðarson
  prenta