Dýr
Dálkur: É Röð: 48
© Haukur Snorrason/photos.is 
Að Skálabrekku

Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll.
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl.

Og þúfutittlingur tekur með frænda sínum,
tístandi steindepli, undir við þennan klið.
En heiðlóan blessuð á hreiðrinu sínu er þögul,
og herra spói er líkast til ekki við.

Í brekkunni neðar legg ég við hlustir og heyri
að hefðarfrú skrautleg er komin til sumarþings:
Randafluga heitir sú hátign og dregur
hunangsseiminn á meðal blóma og lyngs.

Og vinur minn himbrimi af vatninu til mín kallar:
Velkominn hingað í bláheima, drengur minn!
Ég svara af bragði: Ég veit hvar frúsla þín verpir,
og vandlega skal ég þegja um bústað þinn!

Ólafur Jóhann Sigurðsson

  prenta