Atriðisorð:
Goðdalir




  Örnefni
Dálkur: D Röð: 1
© Haukur Snorrason/photos.is 
Í Goðdölum
Kveðja til Sigurðar í Stekkjarholti

Á sumarskrúð um Skagafjörð
skugga slær í þetta sinn
er þú ferð á fund við jörð
fallni tryggðavinur minn.

Sárt ég hlýt að sakna þín
svo var okkar kynning góð.
Alla tíð hún skært mér skín.
Það skeflir ekki í þína slóð.

Rakið get ég margt og margt
sem minningarnar kalla í hug
og hiklaust var og hreint og bjart.
Það hófst við gleðiborð á flug

því gáfur þínar, geð og sál
gneistum slógu í orðafar.
Ég dáði oft þitt daglegt mál
hve dýrt, hve lífi gætt það var.

Ég mat ei síður minnið traust:
þann mikla brunn sem áttir þú –
og innra þrek sem æðrulaust
bar ytri raun í sigurtrú.

Vinur sögu, söngs og ljóðs
þú sagðir mér að dauðans hönd
hún leiddi allt vort líf til góðs
er leysast mundu jarðarbönd.

Ég veit ei slíkt, en vona þó
að veröld fögur opnist þér.
Ég fel þig dauðans dul og ró
því djúpi sem er hulið mér.

Hannes Pétursson

  prenta