Atriðisorð:
Miðfjörður




  Örnefni
Dálkur: A Röð: 19
© Haukur Snorrason/photos.is 
Í Miðfirði

Náttkul af haustbleikum heiðum
hljótt yfir engjum.
Myrkrödduð muldrar á flúðum
Miðfjarðará.
Heim fetar hestur þinn lyngmó
undir hauststjörnum
kyrrð er í dölum
Kormákur skáld.

Drúpir þú dimmbrýndur höfði.
Dvelur þinn hugur
víðsfjarri lýðum og löndum
ljóði og söng?
Leggur þú hugfanginn hlustir
við haustvötnum
eða kyrrðinni í dölum
Kormákur skáld?

Ekki mun hugur þinn athvarf
óræðum gátum
né finnur eyra þitt yndi
í árinnar söng.
Ólgar þér eldur í barmi
og ástríður
kynda þar undir
Kormákur skáld.

Ævilangt brennur sá eldur.
Í afli þeim herðir
hjarta þitt hendingar sínar
hvert sem þig ber.
Stefjamál stuðluð og sorfin
til Steingerðar
þessa nótt kvaðstu
Kormákur skáld.

Mistri hins ókomna, ofin
Álagaskuggum
heift þinni og beiskju, sig hylur
harmsaga þín.
Grunlaus er gleði og ást þín
og Gnúpsdalur
kallar þig löngum
Kormákur skáld.

Milt strýkur morgunsins svali
Miðfjarðar öldur.
Einn fer þú haustlituð engi
ása og kjörr
veizt ekki af völvunnar galdri
né vinslitum
kynlegra hjartna
Kormákur skáld.

Hannes Pétursson

  prenta