Dýr
Dálkur: É Röð: 46
© Haukur Snorrason/photos.is 
Svartþröstur

Sólþrösturinn syngur ekki að veturnóttum
í veðraham með úfnum fjöðrum
þegar ljós er dregið niður
í lampanum sem ósar
og teygir sóttungur
upp sólfáð glasið

Syngur ekki en bælir sig í visnu grasi
undir vængjasúgi stormfuglsins
hins fráneyga er skimar
úr skýjum eftir bráð. Sjáðu:
Tvö brennandi augu
við bjúgnef mánans.

Bælir sig að jörð og hlerar niður
í hlykkjótt moldargöngin undir frosnum þekjum
þar sem skriðljós ánamaðksins
iða sem hrævareldar í myrkri
hugans. Dýpra
dylst hið fagurbleika sumaragn

Felur sólgult nefið undir væng
og veit að þessi fölu strá má nota
til að flétta ný hreiður
í nýjabrumi vorsins – ef það sprettur
þá einhverntíma undan bláum nöglum
þessara nístandi frosta

Djúpt, djúpt í fiðruðu brjósti
blundar rödd sólþrastarins

Hannes Sigfússon

  prenta