Dýr
Dálkur: A Röð: 18
© Haukur Snorrason/photos.is 
Lóan er komin I

„Lóan er komin“ ég les í morgunblaði.
Hún lenti í gær á þúfu í Kópavogi.
Á köldum degi kviknar veikur logi.
Kliður fer um landsins frægu staði.

Einn mólitur fugl með fagran söng í nefi
og fjarlægan skóg í dökku sumarstéli.
Bláklukkulyng hún boðar gráum meli
og betri tíð í einu litlu stefi.

Hvað segir hún okkur, manni eins og mér
á myrkum bar á höfuðborgarsvæði?
Á ljósmynd af henni við lítum, segjum skál.

En höfði mínu er fuglinn trúr sem fer
með fjaðrablik úr gömlu sumarkvæði.
Þá hljómar dýrðin djúpt í minni sál.

Hallgrímur Helgason

  prenta