Dýr
Dálkur: Í Röð: 35
© Haukur Snorrason/photos.is 
Úti í Grímsey

Ég er útí Grímsey og gettu hvar ég er
og gettu svoldið betur því ég er ennþá hér.

Ég þarf að liggja á eggjum og ég þarf að síga í bjarg.
Ég þarf að sjá um póstinn og allt þetta fuglagarg.
Og ég þarf að skipuleggja bátaferðir og brim
og bóka flugið á morgun fyrir Bob og Tracy og Kim.

Og ég þarf að passa að sólin setjist ekki í nótt
og segja öllum að vaka en hafa samt voða hljótt
því krían er tæp á geði og selurinn sefur laust
og sjúklega erfitt að fá hann til að sýna manni traust.

Og ég þarf að hita kaffi og koma öllum í hús.
Hverjir vilja te? og hverjir epladjús?
Svo verð ég líka að passa að lömbin plumi sig vel
og panta fleiri öldur að sunnan með næstu vél.

Og ég þarf að fiska í soðið í bítið sérhvern dag
og sjá hvort ég get ekki komið skrattans rellunni’ í lag.
Og ég verð að fá að vita hvað verða margir í mat
og muna að stoppa í kjólinn, það er komið á hann gat.

Það væri nú gott að eiga undirkjól í neyð
því á eftir þarf ég að messa og spila á orgel um leið.
Já, hér er í nógu að snúast, daginn út og inn
og engin þörf að kvarta, elsku vinurinn minn.

Því ég er útí Grímsey og gettu nú hvar ég er
Og gettu soldið betur því ég er ennþá hér.

Hallgrímur Helgason

  prenta