Landslag
Dálkur: Ð Röð: 12
© Haukur Snorrason/photos.is 
Pensildrættir blámans

Og hafið ...

þar sem almættið speglar ásjónu sína
blint einsog öldurótið í sálinni
úfið með gráa drauma í fanginu
og framandi orð á vör.

Þegar sólin flýtur við hafsbrún
stendur eyjan í björtu báli,
ísmolar tinda
glös full af glóandi víni.

Strigi strengdur yfir heiminn
og rammaður inn með klettum,
spegill í söltum dropa
gargandi fuglar og grjót.

Sjáðu pensildrættina,
hvernig þeir bylgjast um heiminn,
blámi í syngjandi öldu
orð sem sprikla einsog fiskar.

Og löðrið ...
einsog skegg á gömlum manni
sem stígur á land og hverfur í hafið,
hið dimmleita haf, hinn bylgjótta sæ.

Einar Már Guðmundsson

  prenta