Atriðisorð:
Eyvindarkofaver




  Örnefni
Dálkur: D Röð: 27
© Haukur Snorrason/photos.is 
Í Eyvindarkofaveri

Líf: frelsi: við flýum í útlagans spor
á fjöll undan kröfum og dómum
hefðar og anna, höldum við nálgumst þar
himin þess draums sem við geymum
í minni bjartan og bernskan: á svölum morgni
við blóm og fljót skín sól hans á hreiðurmó
fleygra söngva, þar kalla ekki klukkur úr turni
og kurla líf okkar, dreifa því, strá

visnuðum óskum og vilja staðlausra stunda
í straumiðu hraðans. Dagur og nótt
leiðast í ró um borg hinna bláu tinda,
um brjóst þitt haustlegt og snautt
og vekja til ljóss og vonar allt bælt og þreytt
í vinjum hvíldar og leiks. Hve gott var að fara
og láta að baki land hinna holu múra,
leit þína að átt

í gjörningarökkri og gliti sem dylur og heillar:
Glaumur fagnar þér, tómleiki býður þér heim,
slungin græðgi vísar þér veg til hallar,
varúð brosmild og lokkandi hvíslar: gleym
órum þínum í örmum mér, látum
aðra um að sýna hreinskilni og þor;
sjá flærð og þýlund hreykjast í hæstu sætum,
hugsjón og göfgi sparkað á dyr

og frelsi smáð og fjötrað á opnu svæði —
nú fylgirðu mér til gleðinnar, vinur minn!
En hugur þinn vakir þó hönd þín sofi: í niði
hjólanna syngur fögnuður þinn
að komast burt, út í bláinn, finna þig enn
brautingja sólhvítra töfra, veglausrar þrár;
andvarinn ber þér óm af fjarlægu ljóði,
álftir á vatni þylja fréttir og spár

úr veröld hjarta þíns. Hjúpuð kvíða og leynd
rís húmfylgjan blakka, truflar hinn fjálga lestur
og læðist hingað í hjólför okkar um sand
hins heiða dags inn í mistur
fölskvaðrar ævi og brunninna beina í lind
hjá bænum í auðninni, rofi hins seka manns;
þú stendur á blómstráðu gólfinu þögull gestur,
geigskyggn í sporum hans.

Hann horfir á þig frá hlóðunum sterkur, frjáls
og hlekkjaður vanmætti og ótta:
ungur strauk ég í átt til hins hulda dals,
örvona og lotinn nam ég hrjóstrin á flótta
og hlúði við barm mér bláeygum draumi;
í blindri þrjózku sór ég um langa nótt
hungurs og frosts að vinna það afrek eitt
sem afmáir brot mitt, gefur mér frið í heimi

hins almenna lífs; frelsið er falið þar
sem fólkið berst — Hann leggur við hlustir, starir
suður í húmgljána, heyrir
harðan og þungan jódyn sem glymur nær
og nær þér; svanir hjarta þíns hefja flug
og höndin kreppist, nei hér er ekkert á seyði:
lindin kliðar, í kringum þig
er kropið til grasa, fellið sem brann og glóði

í hrammi jökulsins kulnar í kvöldblámans þró.
Slík kyrrð og tign, aldrei þráðirðu heitar
að hverfa inn í friðlýstan fögnuð draums þíns en nú
er fegurð hans vísar þér utar
og jóreiðin dynur og nálgast á ný
í napurri reynd: Hið myrka vald sem þú hatar
er komið að sækja þig, sakarefnið er nóg;
þú svipast um bleikur, leitar

að vörn eða skjóli, hugrekki, hreinum vilja,
sérð hálfverk og gremju, reikulan þokusveim.
Útlagi manns og auðnar, þín hönd er tóm,
í alræði sjálfs þín er hvergi um neitt að velja,
gæfa þín týnd — Nei! enn áttu kvöl og ást
sem ekkert gat þaggað né slökkt en logar og hljómar
í djúpi hjarta þíns: líkn hennar rís og ljómar
leiðina fram, og hik þitt og vonleysi snýst

í þor, í trú á sigur sannleiks og réttar;
hið sókndjarfa lið sem þú beygðir hjá
kallar þig þúsund tungum til einnar áttar
gegn áþján dauðans, sundrung og feigðarþrá;
myrkrið flýr með hvern ugg sem það ól
og allt er skylt þér og kært, vafið ljósi og yl,
turnar borganna, brot hinnar grónu tóttar
í blánni. Og aftur knýr vélin hin þungu hjól

um öræfin þögul og dul inn í nýan dag.
Þó dimmi á hættum vegum
er engu að kvíða: þau ljóma hin rauðu log
og lífið er beint af augum;
þú horfir sýkn fram á heilli gjöfulli tíma,
sérð heiðan vorblæ nema hvern dal og tind
og frjálsa menn njóta fegurðar starfs og drauma
hjá fornum múrum, við blóm og lind.

Snorri Hjartarson

  prenta