© Haukur Snorrason/photos.is 

Drangar

Mig dreymir yfirleitt ekki
       en í nótt dreymdi mig ófleyga lunda í tuga
       ef ekki hundraðatali.
       Þeir skóku stutta vængina út í loftið án afláts
       en komust hvergi.
                      Þetta var í Reynisfjörunni
       milli dranganna og Dyrhólaeyjar.

       Þar hefur mér alltaf liðið vel.

       Í draumnum steðjaði ógn
       að fuglunum frekar en mér
       og getuleysi þeirra grúfði sig yfir mig
       eins og yfirvomandi dauði.

       Þegar ég vaknaði fannst mér ótrúlegt að ekki væri
       rigningarúði
       því þannig hafði verið í draumnum;

           úði í fjörunni en sólstafir víða á hafi.

Haukur Ingvarsson