© Haukur Snorrason/photos.is 

Skógur Íslands

Einmana er björkin vaxin á votum teigi,
vini er ekki að sjá að hún neinstaðar eigi,
vegin með hverskonar vopnum á nóttu og degi,
veðruð, höggvin og beitt.
Kjarrviðir, kalviðir, dreifðir um mýri og móa,
á móts við dynjandi skóga
alls ekki neitt.

Kræklóttir dvergar sem dauðanum verjast á hnjánum,
daprir og gamlir, hrjáðir af meiðing og ránum,
hnepptir í varðhöld í mýrlendri brekku hjá blánum,
bleikir með hrukkótta kinn.
– Hér var þó áður mín eik og þarna minn hlynur.
Ó, hvað ég minnist þín vinur,
„Dimmskógur“ minn.

Birtist þú enn þegar angan af regnvotum blöðum
andvarinn ber eftir kvöldloftsins sólgylltu tröðum,
draumvangur æskunnar, ómandi af leikjunum glöðum,
upprunans fjarlæga þrá.
Blaðfáir kalrunnar breytast og stórskógur niðar,
bugðast um mörkina viðar
einstigi smá.

Útlagans hreysi er umlukið þyrnóttu gerði,
innganginn mun hann þér verja með boga og sverði.
Konungur skógarins stendur þar stoltur á verði,
stofn hans er mikill og forn.
Sólgolan þýtur og laufhafið lyftist og fellur,
langt inn í myrkviðnum gellur
veiðimannshorn.

– – –

Senn munu dvergvaxnar bjarkir í blautlendis halla
beygja í auðmýkt sín höfuð til jarðar og falla.
Berast mun aldrei oftar um brekkur og stalla
ilmurinn mildur og tær.
Skína mun kærleiksrík kvöldsól og breyta ekki lögum,
– kemur þá austan af drögum
fátækur blær.

Guðmundur Böðvarsson