© Haukur Snorrason/photos.is 

Esjan og kvinnurnar

Esjan er yndisfögur
utanúr Reykjavík.
Hún ljómar sem litfríð stúlka
í ljósgrænni sumarflík.

En komirðu, karl minn! nærri,
kynleg er menjagná.
Hún lyktar af ljótum svita
og lús skríður aftaná.

Svona’ er nú fegurð fljóða. –
Fallvalt er yndi þitt.
En samt giftist maður meyju
og menn eru hræddir um sitt.

Þórbergur Þórðarson