© Haukur Snorrason/photos.is 

Surtshellir í Hallmundarhrauni

Ber mig inn í bergið svarta,
byrgðu mig við steinsins hjarta, –
lát mig einan. Útiloka
alla geisla hlýja og bjarta.
Lát mig ekki lengur dreyma
ljós og jólanætur heima.
Svarta þoka, svarta þoka
sveipist fast að huga mínum.
Herra, yfir hjartans frið
helltu úr reiðiskálum þínum.
Flyt þá burt, er fegurst sungu
langra daga draumanið, –
svo ég geti sætt mig við
sorgina og böndin þungu.

Lokast svartir hamrar hljóðir,
hverfa dagsins röðulglóðir,
döggum hlúðar heiðaslóðir,
allir geislar góðir,
grátklökk hvíslar bergsins lind
innst í myrkri:
litli bróðir, litli bróðir.

Láttu gleymast liðnar stundir,
ljósar, sléttar álfagrundir,
vorsins glaða vatnanið,
blómabreiðu um dal og draga,
unað þess á allar lundir.
Láttu gleymast, láttu gleymast –
svo ég geti sætt mig við
sólskinsleysið alla daga.

Hverfur, hverfur huga mínum
himinninn með stjörnum sínum,
allt sem bezt ég átti og geymdi,
allt sem hjartað sælast dreymdi. –
– – Mun mín nú ei lengur leita
ljósið fagra, bjarta og heita? –
Hvort mun mér ei hitna í blóði,
ef ég heyri einu sinni
í eilífðinni
óm af fögru farfuglsljóði?
spyr ég þá hinn háa hamar.

Innst úr myrkri er mér svarað
– innst þar inni –
aldrei framar, aldrei framar.

Guðmundur Böðvarsson