© Haukur Snorrason/photos.is 

Síðsumarþoka

Sjá, þokan hylur hamraklifin þröng
og hjúpar gráum feldi bláan tind.
Hún læðist gegnum daladrögin löng
og daufum liti strýkur hverja mynd.
Hið gneypa fjall með gyllta ennisspöng
sem geisli morguns töfragliti rauð,
það hverfur óðum, ásýnd þess er týnd,
og endurminning fjallsins köld og dauð.
En formlaus veröld felur grátið land.
Í fjarska ómar brot úr tregasöng:
Einmana tónn í lækjarbunu og lind
leitandi skrefum fetar sortans göng.
En blýgrá alda byltist upp við sand,
brotnar og hringir djúpsins líkaböng.

Og þar sem áður eldur var og glóð
og undrabjarmi lék um skýjahöll
og roði kvöldsins rann sem funheitt blóð
er ryklit voð – og sveipar hvolfþök öll.
Og hann sem dag einn dýrum farmi hlóð
sitt draumaskip með stælta og mjúka rá
og silfurstafn og seglin hvít sem mjöll
syrgir í hljóði og þerrar vota brá.
En yfir sefið andar golan feigð
og auðmjúk lykkjast sína huldu slóð.
Sölnandi stráin svigna um gróinn völl,
þú sérð ei framar blöðin græn og rjóð.
Við Dumbshaf þjóð mín dylur kvíðann beygð
og dreymir betri himin angurmóð.

Hún veit á þyrnigötum gömul spor,
sem gengin voru í þúsund reynsluár.
Og bleikföl króna blómsins frá í vor
í bikar sínum geymir hennar tár.

Ólafur Jóhann Sigurðsson