© Haukur Snorrason/photos.is 

Sungið við Sogið

Bjarma stafar líkt og logi
laufrautt kjarr hjá bláum vogi.
Bráðum verður svalt hjá Sogi,
söngvalaust og dauðahljótt.
Þó að hreinn sé himinbogi,
hver veit nema fjallið togi
hvítan serk á sig í nótt.

Gestur heima hættir veiðum,
horfir á tæran strauminn freyð’ um
móbergsrif á mjóum eiðum
meðan hann raular gamalt lag.
Anganhöfug átti leið um
unglingsbrjóst á þessum heiðum
hamingjan einn horfinn dag.

Reifist hrími runninn gljúpi,
rjóðrið bleika nóttin hjúpi,
merli vetur mjöll á núpi,
minning sú fer aldrei burt.
Sorgarblíð í sefans djúpi
söm er hún löngum – eins og drúpi
í tunglskinsmóðu mjaðarjurt.

... Eins og hvít í húmi drúpi
hamingjunnar granna jurt.

Ólafur Jóhann Sigurðsson