© Haukur Snorrason/photos.is 

Sumarkvöld

Ó, hvað náttúran er nú fríð,
ununarrík og himinblíð,
blómin anga svo hýr og hrein,
hjalar lækur við kaldan stein,
leika geislar á lygnum öldum,
leiftrar roði á skýjatjöldum,
alskæru höfði er að halla
eldlokkuð sól að baki fjalla.
Hver fær þér lýst af ýta öld,
alfagra, bjarta sumarkvöld!
Æskumanns hrein og óspillt sál
ein fær skilið það huliðsmál,
er hnígandi sól í himinljóma
hjalar við gullna reiti blóma.
Þú skilur ljúfan lækjarnið
og löngunarblíðan fuglaklið
og fimbulramman frelsissöng,
er foss í gljúfra kveður þröng.
En sú er fáum sæla léð,
svellkalt er flestra ýta geð.
Margspilltir eru manna synir,
myrkur elskandi ljóss óvinir,
því fagra lítinn gefa gaum,
girndanna hrekjast fyrir straum.

                   *

Vertu’ ekki’ að reyna’ að velkja mig,
veröld; ó, ég hef elskað þig!
En þú varst gerð af köldum klaka
og kunnir ei minni ást að taka.
Tæla og véla viltu mig,
verð ég nauðugr að hata þig.

Kristján Jónsson