© Haukur Snorrason/photos.is 

Hugsað til Herdísarvíkur

Þangað hvarf örninn, að útsænum víða:
opnum hafgeim að syðstu strönd.
Þar sá hann hinzt á loftið líða
ljósbjarmann þráða, morgundagsrönd.

Í kringum hann glóði allt það undur
sem aldrei varð séð og numið í grunn.
Og lokið var flugi. Nú leystist sundur
líf hans hjá svarrandi vetrarunn.

Sú arnarkló sem hér uppi hangir
í eldsmiðju vorri, af sindri bleik
er kló hans, hengd yfir kol, yfir tangir
kló hans slegin gneistum og reyk.

Hannes Pétursson