© Haukur Snorrason/photos.is 

Hallgrímur lýkur Passíusálmum

Ó loksins – og hann leggur seint til hliðar
hinn létta fjöðurstaf og blaðar þögull
í verki sínu, veit að nú er allt
sem vildi hann öðrum segja fólgið þar
fullskapað, heilt og hreinna en jarðarvatn.

Rís svo á fætur, finnur svíða á ný
hin fúlu kaun sem aldrei batna, en dýpka
og breiðast út; sem hefði andlit hans
og hendurnar til yztu fingurgóma
ei annað hlutverk átt að rækja á jörð
en innibyrgja, geyma þetta verk
og mætti nú opnast eins og bresti skurn
utan af hinum fullþroskaða blóma.

Hannes Pétursson