© Haukur Snorrason/photos.is 

Vorvísa
(à la J. Þorláksson!)

Tinda fjalla,
áður alla
undir snjá,
sín til kallar sólin há;
leysir hjalla,
skín á skalla,
skýi sem að brá
og sér fleygði frá.

Tekur buna
breið að duna
björgum á,
græn því una grundin má;
viður hruna
vatnafuna
vakna lauf og strá –
seinna seggir slá!

Snjórinn eyðist,
gata greiðist,
gumar þá
– ef þeim leiðist – leggja á;
hleypa skeið
og herða reið
og hrinda vetri frá;
hverfur dimmudá.

Prúðir sækja
lón og læki
laxar þá,
sumir krækja silungsá;
veiðitækir,
sporðasprækir
spretti hörðum á
fjalli fýsast ná.

Fjaðraléttir
flokkar þéttir
fugla þá
synda ettir sumará;
eða mettir
strönd og stéttir
stika til og frá,
kæta loft og lá.

Ærin ber –
og bærinn fer
að blómgast þá,
leika sér þar lömbin smá.
Nú er í veri
nóg að gera,
nóttu bjartri á
hlutir hækkað fá.

Grænkar stekkur,
glöð í brekku
ganga kná
börnin þekku bóli frá;
kreppir ekki
kuldahlekkur,
kætist fögur brá –
búa blómum hjá.

Rennur sunna,
sveinn og nunna
sér við brá,
síst þau kunna sofa þá;
sælt er að unnast –
mjúkum munni
málið vaknar á,
fegurst höldum hjá.

Ekkert betra
eg í letri
inna má –
svo er vetri vikið frá;
uni fleti
hver sem getur
heimskum gærum á. –
Önnur er mín þrá.

Jónas Hallgrímsson