© Haukur Snorrason/photos.is 

Kvöld

Komdu og kysstu mig, mey, hér er kyrrt undir leitinu græna,
   glóir á grasinu dögg, grundirnar kveður nú sól.
Lóurnar syngja í loftinu hátt og laukarnir glóa,
   allt er svo dýrðlegt í dag, dálítið sittu mér hjá.
Sjórinn er fagur og silfruðu bandi hann sveiflar um löndin
   sem að nú grösug og græn gyllir hin kveðjandi sól.
Ó, þú dýrðlega umgjörð, þú heimur sem ástina kringir,
   skaparans almættisorð engu þig myndaði af.
Svo skulum bæði við sitja og kyssast og sælunnar njóta!
   hirtu ei þó verðirðu vot, Venus ei hugsar um slíkt.
Minn vil ég arm um mittið á þér í munaði leggja,
   síðan þá bæði við sætt sofnum og dreymum um leið.
Grasið er vott, ég er gagndrepa orðinn, gefðu mér kaffe,
   annars kann að mér að slá, elskan mín, heyrirðu það?

Benedikt Gröndal