© Haukur Snorrason/photos.is 

Sporglaðir hestar

Sporglaðir hestar,
með söngdjarfar hörpur
í brjósti
og hafvilltar erlur á flögri
yfir brotsjóum hjartans,
renna sköfluðum hófum á skeið
yfir gljáandi ísa:
skelþunna spöng
milli hvelfinga lífsins og dauðans.

Ógnarrödd kallar úr djúpinu,
keyrir þá sporum.
Í opinni kviku
þjótandi ísnálar brotna.
Logandi dreyri
drýpur úr skýjanna sárum:
dumbrauðar himnur fellir
á brástjörnur ungar.

Gripstyrkri hendi
er þrifið í faxið
og förin stöðvuð
á vakarbarmi.
Er birtir af degi
sjást fáeinar lifandi rósir
ristar í svellið,
rauðar og hvítar,
og fagnandi tínir þær sólin.

Einar Bragi