© Haukur Snorrason/photos.is 

Haustljóð á vori

Ein flýgur sönglaust til suðurs,
þótt sumartíð nálgist,
lóan frá litverpu túni
og lyngmóa fölum,
þytlausum vængjum fer vindur
um víðirunn gráan.
   Hvað veldur sorg þeirri sáru,
   svanur á báru?

Misst hefur fallglaður fossinn
fagnaðarróminn,
horfinn er leikur úr lækjum
og lindanna niður,
drúpir nú heiðin af harmi
og hörpuna fellir.
   Hvað veldur sorg þeirri sáru,
   svanur á báru?

Felmtruð og þögul sem þöllin
er þjóðin mín unga,
brugðið þér sjálfum hið sama:
þú syngur ei lengur,
þeyrinn ber handan um höfin
haustljóð á vori.
   Hvað veldur sorg þeirri sáru,
   svanur á báru?

Einar Bragi