© Haukur Snorrason/photos.is 

Snæfellsjökull gengur á land

Hann sást af Nesinu eitt föstudagskvöldið
í maí svo uppljómaður að nú hlaut hann loksins
að ganga á land til mín í eitt skipti fyrir öll.

Og var kominn að mér sofandi aðfaranótt
laugardagsins. Hann sagði: Það hefur ekki
farið fram hjá mér Steinunn hvernig þú horfir
á mig. Svona horfa konur ekki – ekki nema
þú – og hvernig lifir þú eiginlega, þegar
skyggni er slæmt, eða ég sést ekki af öðrum
ástæðum, ég nefni aðeins náttmyrkur og stað-
setningu þína.

Jáen Snæfellsjökull minn, sagði ég, hvernig
átt þú að geta þrifist, þegar ég er ekki að
horfa á þig, af því ég sé ekki til þín.

Fæst orð hafa minnsta ábyrgð, sagði hann þá
hryggur. En svona gengur þetta ekki lengur.
Ég tek mig upp, ég geng á land í Reykjavík og
verð hjá þér alveg og alltaf.

Þá leið mér aldrei betur.

Um morguninn var hann hvergi og ég sem hafði
sofið hlaut að segja: Þú sem ert draumur
vertu ekki draumur í alvörunni.

Steinunn Sigurðardóttir