© Haukur Snorrason/photos.is 

Þjófadalir

Hjarnbreiðan lykur sóllaus svöl og grá
um svartan eyðidalinn, skolug á
steypist í fossum fram um hamraþil
flughátt og dökkt í úfinn löðurhyl,
og yfir grúfa regnský rökkurgrá.

Hér grær ei blað né blóm á fljótsins leið,
það byltist niður urð og leir og snjó,
og jökulhrönnin brotnar löng og breið
við blakkan malarkamb í þungri ró,
með hola dimma hella úr sendnum snjó.

Það hnípir varða bleik sem skoluð bein
við brimgrátt fljótið, vofuföl og ein,
sem vofa manns er varðist einn í neyð
og vökin opnum faðmi í snjónum beið;
svo voveiflega vofuföl og ein.

En fram af dalnum hlær við grösug hlíð,
hnjúkur með rauðum skriðum, grænum tóm;
þar gárar lindir gola rök og þýð,
þar gróa fjólur, murur, klukkublóm
við sólrautt grjót í sumargrænni hlíð.

Í víðisveigum ljóma um lauf og grein
ljósálfablysin skær og anganhrein,
um blástirnd rjóður halda hvannir vörð,
háar, á djúpri rót í svalri jörð,
blómmjúkri jörð sem glóir græn og hrein.

Hér vefur móðurfaðmi hlíðin há
og hlúir frjómild lífsins smæstu þjóð
og allt í kring er auðnin köld og grá,
ísköld og járngrá, slungin fölri glóð.
Mín blómahlíð, mitt land, mín litla þjóð!

Snorri Hjartarson